Hljóðön

Sýning tónlistar

Tónlist í tímaleysi safnarýmisins er eitt umfjöllunarefni sýningarinnar Hljóðön – sýning tónlistar, sem opnar laugardaginn 26. janúar í Hafnarborg.

Sýningin fagnar fimm ára starfsafmæli samnefndrar tónleikaraðar, sem hefur verið á dagskrá Hafnarborgar allt frá árinu 2013 og tileinkuð er samtímatónlist. Víkkar því hér starf raðarinnar tímabundið þar sem tækifæri gefst til nánari kynna við tónlist, sem tekst með einum eða öðrum hætti að dreifa úr sér í tímaleysi safnsins.

Hér er hugmyndaheimur tónlistarinnar þaninn út fyrir heim hljóðanna, þar sem sjónræni þátturinn hefur sterka rödd í verkunum og mótandi áhrif á upplifunina. Tónlistin verður hér í senn hljóð og hlutur, flæði tímans er skipt út fyrir flæði í rými, hljóðinu skipt út fyrir hluti, flytjandanum skipt út fyrir hlustandann.

Á meðal listamanna eru Ásta Ólafsdóttir, Steina, Steinunn Eldflaug Harðardóttir, Logi Leó Gunnarsson, Jón Gunnar Árnason, James Saunders, Bergrún Snæbjörnsdóttir, Magnús Pálsson, Tom Johnson, Curver Thoroddsen og Einar Torfi Einarsson.

Yfir sýningartímann verða einnig haldnir viðburðir, þar sem fram koma ólíkir listamenn og flytjendur. Má þar nefna Harald Jónsson, Ástu Fanneyju Sigurðardóttur, Jennifer Torrence, Marko Ciciliani, Barböru Lüneburg, Skerplu, Berglindi M. Tómasdóttur og fleiri.

Sýningarstjóri er Þráinn Hjálmarsson, tónskáld.

Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Hafnarborg efnir þar til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni eru jafnan verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar, sem telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu.


Sýningin hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2020 sem tónlistarviðburður ársins (einstakir tónleikar), fyrir opnunartónleika sýningarinnar, í flokki sígildrar og samtímatónlistar.