Gunnar Á. Hjaltason

Málverk og grafík

Þann 8. október 1988 opnaði sýning Gunnars Á. Hjaltasonar í aðalsal og kaffistofu Hafnarborgar, þar sem sýnd var 121 landslagsmynd. Sýningin var sölusýning í samræmi við þáverandi stefnu safnsins.

Gunnar Á. Hjaltason (1920-1999) fæddist í Eyjafirði en fluttist ungur til Reykjavíkur og settist síðar að í Hafnarfirði. Gunnar lærði gullsmíði hjá Guðmundi Guðnasyni og Leifi Kaldal. Áður stundaði hann nám við teikniskóla Björns Björnssonar og Marteins Guðmundssonar og sótti sömuleiðis námskeið á vegum Myndlista- og handíðaskólans, m.a. í tréristu hjá Hans Alexander Müller. Gunnar hélt einkasýningar víðs vegar um landið frá 1964, auk þess að taka þátt í samsýningum bæði innan og utan landsteinanna.