Dvalið hjá djúpu vatni

Rúna

Á sýningunni er farið yfir langan og fjölbreyttan listferil Rúnu – Sigrúnar Guðjónsdóttur (f. 1926) en eftir hana liggur fjöldi listaverka, hönnun og verk í opinberu rými. Elstu verkin eru frá því um 1950 en þau nýjustu frá þessu ári, 2013. Rúna er ein af þeim konum sem tóku þátt í mótun íslensks listalífs á síðari hluta 20. aldar og starfar enn að listsköpun af miklum krafti. Hún og eiginmaður hennar Gestur Þorgrímsson sem lést árið 2003 eru meðal frumkvöðla íslenskrar leirlistar og stofnuðu meðal annars leirbrennsluna Laugarnesleir árið 1947. Gestur og Rúna unnu einnig saman að veggskreytingu bygginga. Stór hluti ævistarfs Rúnu eru teikningar unnar á leirgripi, bæði einstök verk á jarðleir og myndir á postulín sem hún vann fyrir alþjóðleg fyrirtæki á borð við Bing & Gröndal og Villeroy & Boch. Þó leirinn skipi veglegan sess á meðal verka Rúnu hefur hún unnið fjölda málverka og teikninga auk bókaskreytinga. Verk hennar í hina ýmsu miðla bera sterk höfundareinkenni og eru alltaf auðþekkjanleg. Maðurinn og mennskan eru áberandi yrkisefni. Mjúk og ávöl form, ryþmi og ljóðræna einkenna verk hennar. Rúna hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og eru verk eftir hana í opinberri eigu.

Sýningarnefnd skipa: Brynhildur Pálsdóttir, Ólöf K. Sigurðardóttir og Þorbjörg Br. Gunnarsdóttir.

Um sýninguna:

Dvalið hjá djúpu vatni
– yfirlitssýning á verkum Rúnu – Sigrúnar Guðjónsdóttur

Ég finn mótspyrnu tímans
falla máttvana
gegnum mýkt vatnsins

Meðan eilífðin horfir
mínum óræða draumi
úr auga sínu.
Steinn Steinarr: Tíminn og vatnið

Heiti sýningarinnar, Dvalið hjá djúpu vatni, er fengið að láni úr frumgerð ljóðaflokksins um Tímann og vatnið. Vatn táknar oft huga eða hugarástand, en það er líka upphaf og forsenda lífs. Líf með list er lífið sjálft – þessi staðhæfing á einkar vel við líf og listferil Rúnu, Sigrúnar Guðjónsdóttur (f.1926). Líf hennar og listin hafa alltaf verið eins og samofinn þráður, með mismunandi áferð eftir efnum og ástæðum hverju sinni, en alltaf heill og óslitinn. Á sýningunni má sjá dæmi um fjölbreyttan listferil Rúnu, bæði um frjálsa myndsköpun og hönnunarstörf. Hún hefur komið víða við, verið frumkvöðull í gerð leirmuna á Íslandi, starfað með þekktum og virtum erlendum hönnunarfyrirtækjum, unnið að bókaskreytingum og auglýsingum og gert fjölda veggmynda fyrir opinberar byggingar ásamt eiginmanni sínum, Gesti Þorgrímssyni. Auk gripa og mynda sem tengjast þessum verkefnum má á sýningunni sjá listaverk frá öllum ferli Rúnu; myndir málaðar á steinflísar og efnismikinn japanskan pappír.

Rúna hóf listnám í Handíða- og myndlistarskólanum árið 1942 og lauk þaðan myndmenntakennaraprófi árið 1945. Ári síðar héldu þau Gestur til Kaupmannahafnar og hófu bæði nám við Konunglegu listaakademíuna, hún í málaralist, hann í myndmótun. Þetta voru erfiðir tímar, rétt eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar og dvölin í Kaupmannahöfn varð aðeins eitt ár. Við heimkomuna tók Rúna til við myndlistarkennslu og á árunum til 1965 eignuðust þau hjón fjögur börn.

Markmið þeirra Gests og Rúnu var alltaf að gera listsköpun að ævistarfi. Fljótlega settu þau á stofn leirmunagerðina Laugarnesleir á heimili sínu á Hofteigi í Reykjavík, og varð það framtak á vissan hátt grunnurinn að lífsverki þeirra beggja. Á þessum árum voru viðskiptahöft við lýði og því erfitt að útvega allt það sem til þurfti til að stofna og reka leirmunaverkstæði. Þau hjónin þekktu hvorugt til leirmunagerðar en lásu sér til í bók sem þau höfðu orðið sér úti um í Kaupmannahöfn. Gestur smíðaði brennsluofn og rennibekk og þau byrjuðu að prófa sig áfram með íslenskan leir og gerð glerunga.

Lagt var upp með miklar hugsjónir og háleit markmið í samræmi við tíðarandann. Listaverkin voru unnin í hagnýtan miðil án þess að slegið væri af listrænum metnaði. Aðeins eitt eintak var gert af hverjum grip. Verkaskiptingin milli þeirra Gests og Rúnu varð fljótlega skýr; hann formaði munina en hún skreytti þá. Myndskreytingin var lífleg og litskrúðug og sótti Rúna fyrirmyndir í list samtímans og í suður-evrópska og suður-ameríska leirlistarhefð.

Fyrirtækið fékk góðar viðtökur og meðbyr í upphafi, og var meðal annars haldin fjölsótt sýning á framleiðslunni í Reykjavík árið 1950. Þegar slaknaði á höftunum hófst hins vegar innflutningur á alls konar ódýrum skrautmunum og átti hann drjúgan þátt í að Laugarnesleir lagðist af 1952. Fyrirtækið var síðan endurreist árið 1968.

Á sjöunda áratugnum gerði Rúna töluvert af því að myndskreyta bækur, einkum bækur móður sinnar, Ragnheiðar Jónsdóttur skáldkonu. Árið 1972 kom út barnabókin Rauði fiskurinn og var Rúna höfundur bæði mynda og texta. Bókin var endurútgefin árið 2011 með nýju útliti. Samtímis vann Rúna myndir fyrir auglýsingar og hannaði auk þess bæklinga og veggspjöld sem bera sterk höfundareinkenni og eru jafnframt góður vitnisburður um tíðarandann. Þannig nýtti Rúna frábæra teiknihæfileika og skarpt auga til að leggja til heimilisins um leið og listfengi hennar naut sín í eigin listsköpun.

Árið 1974 var minnst 1100 ára byggðar í landinu. Þjóðhátíðarnefnd stóð meðal annars fyrir samkeppni um teikningar á minningarskildi sem gefa átti út sem minjagripi um hátíðina. Það vakti mikla athygli þegar Rúna hlaut 1. verðlaun fyrir teikningar af þremur kringlóttum veggskjöldum sem hún vann út frá landnáminu – fyrstu landsýninni. Gerður var samningur um framleiðslu skjaldanna við hið virta danska postulínsfyrirtæki Bing & Grøndahl og fór Rúna til Danmerkur til að ganga frá lokahönnun þeirra. Veggdiskarnir urðu mjög vinsælir og eru enn til á fjölmörgum heimilum. Forsvarsmenn Bing & Grøndahl voru áhugasamir um hönnun Rúnu og fengu hana til að gera fyrir sig fleiri teikningar. Á myndunum sem hún vann fyrir Bing & Grøndahl ber mikið á sagnaminnum úr hafinu. Á borðbökkum sem framleiddir voru má sjá þekkt myndefni Rúnu, fiska og hafmeyjar, dregið mjúkum línum. Árið 1975 voru líka framleiddar þrjár stórar veggmyndir: Jónas í hvalnum, Marbendill og Pomona. Rúna var fyrsti íslenski listamaðurinn sem starfaði fyrir Bing & Grøndahl, og var það mikil viðurkenning fyrir listakonuna að svo virt hönnunarfyrirtæki á alþjóðavísu óskaði eftir samstarfi við hana.

Um það bil áratug síðar starfaði Rúna með þýska fyrirtækinu Villeroy & Boch sem einnig er þekkt og virt fyrirtæki á sviði postulínsframleiðslu. Rúna hannaði veggflísar á baðherbergi sem síðar voru settar í fjöldaframleiðslu. Myndefnið var í anda fyrri verka hennar – fiskar og fígúrur tengdar hafinu.

Árið 1975 unnu Gestur og Rúna í fyrsta sinn saman að opinberri veggmynd fyrir nýreista hjónagarða Dvalarheimilis aldraðra sjómanna við Jökulgrunn í Reykjavík. Árið 1977 dvöldust þau síðan í Danmörku og unnu þá veggverk fyrir Islev-skóla í Rödovre. Þegar heim kom hófust þau handa við að vinna stórt og metnaðarfullt verk á utanverða áhorfendastúku leikvangsins í Laugardal. Var það sett upp árið 1981 og prýddi leikvanginn þar til stúkan var endurbyggð árið 2005. Á sýningunni má sjá skissur og hugmyndavinnu í tengslum við nokkrar af veggmyndum þeirra hjóna og opinberum verkum sem Rúna vann sjálfstætt, svo sem Fiskmarkaðinn í Hafnarfirði 1988 og Seljakirkju í Reykjavík 1997.

Meðfram öllum þessum fjölbreytilegu verkefnum – kennslu, samstarfi við þekkt hönnunarfyrirtæki, gerð veggmynda, bókaskreytinga og auglýsinga og félagsstörfum í þágu myndlistarmanna – sinnti Rúna alltaf eigin listsköpun. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga allt frá árinu 1949 fram til þessa dags. Þau hjón sýndu oft tvö saman heima og erlendis allt þar til Gestur lést árið 2003. Árið 2005 varð Rúna fyrsti bæjarlistmaður Hafnarfjarðar.

Eftir að Rúna hætti kennslu undir aldarlokin hefur hún alfarið helgað sig eigin myndsköpun. Hún hefur tekist á við ýmiss konar miðla og þróað mismunandi aðferðir við myndgerðirnar. Snemma á sjöunda áratugum fór Rúna að mála á postulínsflísar. Hún náði fljótt góðum tökum á þessum miðli. Flísamyndir Rúnu eru vel þekktar og segja má að þær séu einstakar og einkennandi fyrir list hennar.

Árið 1985 sýndi Rúna í fyrsta sinn teikningar unnar með kínversku bleki á japanskan pappír. Allar götur síðan hefur hún notað efnismikinn og gljúpan japanskan pappír sem hún teiknar, málar og þrykkir á. Einnig hefur hún unnið klippimyndir.

Þekkt myndmál í verkum Rúnu eru kvenfígúrur, fiskar, fuglar, fjöll og fjara, speglanir og óræð form. Fíngerðar og léttar teikningar hennar bera sterk höfundareinkenni. Liturinn í myndflötunum er lifandi og mismunandi birtumagn flatanna byggir upp rýmið líkt og púsluspil. Sagt hefur verið að í myndum hennar ríki sérstök hrynjandi eða taktur líkt og í tónlist. Sjálf segir hún að aðalinnblástur myndlistar sinnar séu ljóð og aðrar bókmenntir. Hún eigi sér uppáhalds ljóðskáld og rithöfunda sem séu henni stöðugur innblástur – skáld á borð við Stein Steinarr og Snorra Hjartarson. Í myndum hennar má líka skynja lífssýn sem á sér samsvörun í verkum nokkurra erlendra listamanna með svipaða afstöðu til lífsins, listarinnar og hlutverks listamannsins.

Pappírinn eða efniviðurinn sem myndir Rúnu eru unnar á hefur mikil áhrif á þá stefnu sem myndin tekur í meðförum listamannsins. Rúna er alltaf tilbúin að kanna á hvaða slóðir efnið getur leitt hana. Á árunum upp úr 1990 varð til ný myndgerð í list Rúnu. Þar birtast óregluleg form íslensks landslags, og til verða fjarlæg fjöll, jöklar, veðrabrigði og lagskiptur sjóndeildarhringur í samspili við milda akrýl- og krítarliti og fjölbreytilega áferð pappírsins. Árið 2004 sýndi Rúna myndir gerðar með akrýllitum á handgerðan pappír, þar sem jöklar og fjöll mynda nánast abstrakt form. Og enn mátti sjá nýjar tilraunir með myndmálið á sýningu árið 2011.

Góðir listamenn halda áfram að eflast og þroskast í listsköpun sinni þegar þeir eru komnir á efri ár. Sköpunargleðin minnkar ekki með hækkandi aldri og sköpunarþrá Rúnu er jafnsterk og lifandi og áður, hugurinn frjáls og leitandi að nýjum draumum, eins og segir í þessum línum eftir japanska rithöfundinn Haruki Murakami, einn af þeim sem hefur veitt Rúnu innblástur til listsköpunar:

Frelsaðu huga þinn. Þú ert ekki fangi. Þú ert fugl sem flýgur um himingeiminn í leit að draumum.

Þorbjörg Br. Gunnarsdóttir