Aðdráttarafl

Björk Viggósdóttir

Ný innsetning eftir Björk Viggósdóttur, unga myndlistarkonu, sem vakið hefur athygli fyrir áhugaverð myndlistaverk. Hún nýtir gjarnan fjölbreytta miðla og eiga innsetningar hennar það til að lifna við í óvæntum gjörningi sem setur allt úr skorðum. Eins og titill sýningarinnar gefur til kynna vísar Björk hér til veigamikillar undirstöðu náttúrunnar sem er í sjálfu sér ósýnilegt afl, sem hefur bein áhrif á tilvist okkar og gjörðir. Björk útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2006 og hefur síðan átt verk á sýningum víða, meða annar í D-sal Listasafns Reykjavíkur. Auk þess að fást við myndlist hefur hún unnið að leikhúsuppsetningum og tekið þátt í dans- og spunahópum þar sem hún hefur verið höfundur sviðsmyndarinnar.
Sýningarstjóri er Klara Þórhallsdóttir.


Aðdráttarafl, hringlaga hreyfing
Björk Viggósdóttir

Myndheimur Bjarkar Viggósdóttur er hlaðinn táknmyndum og verkin sett saman úr fjölbreyttum efniviði sem myndar marglaga innsetningar.

Efniviðurinn eru oftast hversdagslegir hlutir sem við þekkjum úr okkar daglega umhverfi, til að mynda umslög, tjöld, reipi, dýnur, vinnuljós, sólhlífar eða net, svo eitthvað sé nefnt.
Björk gefur þessum hlutum ný hlutverk í verkum sínum. Hún kollvarpar venjubundnum táknmyndum þeirra, þannig að við gleymum um stund hversdagslegum tilgangi þeirra.
Í þessum heimi táknmynda og hversdagslegra hluta eru líka lögmál sem við veitum ekki endilega athygli en fylgja okkur í hverju fótspori. Eins og titill sýningarinnar gefur til kynna vísar Björk hér til veigamikillar undirstöðu náttúrunnar sem er í sjálfu sér ósýnilegt afl, en hefur þó bein áhrif á tilvist okkar og gjörðir.

Aðdráttarafl jarðar er öryggisfesting sem heldur heiminum saman og okkur á jörðinni. Það þarf tvo krafta til að halda hlutum á hreyfingu og togstreitan á milli átaks og hvíldar verður að leiðarstefi hér. Rýmisverk Bjarkar er áskorun á skynfærin þar sem listamaðurinn leitar eftir þátttöku áhorfandans. Veigamikill hluti innsetningarinnar eru rólur, þær eru tæki til að skynja togkraft aðdráttaraflsins í eigin líkamsþyngd. Við setjumst upp í, hvílum þunga okkar og finnum hvernig við getum slakað á öllum vöðvum sem við notum annars til að halda okkur uppréttum.

Með þessum hætti er hægt að virkja aðdráttarafl jarðar og skynja fullkomið jafnvægi í toginu sjálfu, en á sama tíma erum við í stöðugu reiptogi við þetta magnaða afl. En þrátt fyrir mikilvægi þessa náttúrulögmáls sem heldur lífinu gangandi á hringlaga ferð í tímarúminu, erum við jafnframt tilneydd til að sigrast á því og stundum með baráttu. Við ferðumst upp hæðir með lyftum, fljúgum með flugvélum um himininn og skjótumst út í geim með geimflaugum. En þegar við fljúgum í draumum okkar tökum við gjarnan sundtökin, því eina þyngdarleysið sem við þekkjum er á sundi.

Annar hluti innsetningarinnar eru myndbandsverk. Þau geyma brotakenndar myndir sem listamaðurinn hefur safnað á ferðalögum sínum. Þetta eru leyndardómsfullar stemningar þar sem athyglinni er beint að mismunandi sjónarhornum sem sýna andartakið þegar augu okkar staðnæmast og við virðum fyrir okkur fána blakta við hún eða horfum dreymin á skilin milli hafs og himins. Það ríkir yfirveguð stemning yfir þessum myndskeiðum í bland við jarðbundið jafnvægi, við erum í hvíld en samt á ferð.

Innsetninguna má lesa sem nokkurs konar boð um að íhuga leiðangur okkar um veröldina, um leið og listamaðurinn biður okkur um að endurskoða hvað við vitum um okkur sjálf. Við erum kannski öll með fæturna á jörðinni, dæmd til að lifa í toginu, en í huganum eru engin takmörk. Við gleymum okkur í daglegu amstri og trúum ekki að við getum sett fram okkar eigin tilgátur, smíðað okkar eigin kenningar um fullkomið jafnvægi. Því við lifum á ævintýralegum stað í töfrandi tilveru þar sem hinn eini sanni galdur býr í hversdagsleikanum.

Björk Viggósdóttir (f. 1982) býr og starfar í Reykjavík. Hún hefur tekið þátt í samsýningum hér heima og erlendis. Björk hefur komið að fjölbreyttum verkefnum síðan hún útskrifaðist árið 2006 frá Listaháskóla Íslands. Meðal verkefna má nefna dansverkið Fresh Meat, sem hún setti upp ásamt Sigríði Soffíu Níelsdóttur dansara í London og á Íslandi 2009, og hljóðinnsetninguna Soundscape í MMX-galleríinu í Berlín 2010. Einnig sýndi hún vídeóverk í Chelsea Art Museum í New York og tók þátt í Listahátíð Reykjavíkur 2009. Björk kom að uppfærslu á gríska harmleiknum Bakkynjur í Þjóðleikhúsinu 2006 þar sem vídeóverk hennar var hluti af leikmyndinni.

Texti: Klara Þórhallsdóttir