Á tólfæringi

Samsýning tólf listamanna

Sumarsýning Hafnarborgar árið 1989 hlaut yfirskriftina Á tólfæringi. Sá titill vísaði annars vegar til þeirra tólf listamanna sem þá ýttu úr vör allsérstæðri samsýningu á verkum sínum – olíumálverkum, teikningum, ætingum og skúlptúrum – og hins vegar til sögu Hafnarfjarðar en í bænum hefur verið stunduð útgerð frá upphafi byggðar.

Þeir listamenn sem mynduðu hópinn eru allir vel þekktir fyrir verk sín og hafa hver um sig haldið sýningar bæði hér á landi og erlendis. Í listsköpun þeirra birtast ólík tjáningarform, þótt viðfangsefnið sé oftast tilbrigði um manninn og umhverfi hans.

Þeir listamenn sem tóku þátt í sýningunni voru Björg Örvar, Borghildur Óskarsdóttir, Jón Axel Björnsson, Kristbergur Ó. Pétursson, Magnús Kjartansson, Margrét Jónsdóttir, Sigurður Örlygsson, Sóley Eiríksdóttir, Steinunn Þórarinsdóttir, Steinþór Steingrímsson, Sverrir Ólafsson og Valgerður Bergsdóttir.