Sýningarstjóraspjall – Rás

Helga Þórsdóttir

Helga Þórsdóttir sýningarstjóri ræðir við gesti um sýninguna Rás í Hafnarborg sunnudaginn 14. september kl. 15.

Helga Þórsdóttir er menningarfræðingur auk þess sem hún er menntuð í myndlist og innanhússarkitektúr. Helga hefur starfað sem innanhúsarkitekt, við hönnun, verkefnastjórnun, hönnun leikmynda og sýningarbása og sem leiðsögumaður á Íslandi og í París. Sem myndlistarmaður hefur hún haldið og tekið þátt í fjölda sýninga og einnig komið að textaskrifum um myndlist, en sýningin í Hafnarborg er hennar fyrsta sjálfstæða sýningarstjórnarverkefni.

Rás er sýning þar sem teflt er saman verkum áhugaverðra listamanna sem þekktir eru fyrir að gera huglægri reynslu efnisleg skil á áhrifaríkan hátt. Á sýningunni eru ný verk eftir myndlistarmennina Daníel Magnússon (f. 1958), Guðrúnu Hrönn Ragnarsdóttur (f. 1956), Ívar Brynjólfsson (f. 1960), Ívar Valgarðsson (f. 1954), Sólveigu Aðalsteinsdóttur (f. 1955) og Þóru Sigurðardóttur (f. 1954). Markmið sýningarstjórans með stefnumóti þessara listamanna er að varpa ljósi á samtímalistsköpun sem afl umbreytinga og farveg fyrir nýjar hugsanir og hugmyndir.