Sýningarlok og leiðsögn

Allra veðra von og Allt eitthvað sögulegt

Sunnudagurinn 21. október er síðasti sýningardagur sýninganna Allra veðra von, haustsýningar Hafnarborgar, í sýningarstjórn Mörtu Sigríðar Pétursdóttur, með verkum listakvennanna Höllu Birgisdóttur, Ragnheiðar Hörpu Leifsdóttur, Ragnheiðar Maísólar Sturludóttur, Sigrúnar Hlínar Sigurðardóttur og Steinunnar Lilju Emilsdóttur, og Allt eitthvað sögulegt, ljósmyndasýningar Báru Kristinsdóttur. Af því tilefni mun Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, vera með leiðsögn um sýningarnar kl. 14, ásamt Mörtu Sigríði Pétursdóttur, sýningarstjóra, og listakonunum Höllu Birgisdóttur og Ragnheiði Maísól Sturludóttur. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Allra veðra von fjallar um samband mannsins við veður. Eftir eitt versta sumar í manna minnum á suðvesturhorni landsins og öfga í veðri um heim allan er þetta viðfangsefni ofarlega í hugum manna. Veðrið hefur áhrif á okkur, umhverfi okkar og andlega líðan, og nú á tímum hnattrænnar hlýnunar og breytinga á veðurkerfum heimsins er það þungur biti að kyngja að við sjálf berum ábyrgð á því að miklu leyti. Listakonurnar nálgast viðfangsefnið hver með sínum hætti og sækja föng í þjóðfræðilegar og mannfræðilegar heimildir, fornar sagnir, loftslagsvísindi, upplifanir og atburði líðandi stundar, þar sem kjarninn er alltaf manneskjan frammi fyrir veðri.

Á sýningunni Allt eitthvað sögulegt bregður Bára Kristinsdóttir upp næmri og heillandi mynd af heimi sem er að hverfa. Ljósmyndir hennar gefa innsýn í líf tveggja eldri manna á nælonhúðunarverkstæði í útjaðri Reykjavíkur þar sem tíminn hefur staðið í stað. Á árum áður var þetta fjölmennur vinnustaður þar sem reksturinn blómstraði og unnið var handvirkt upp á gamla mátann. En með nútímatækni kom að því að handbragð þeirra var ekki lengur eftirsótt og fyrirtækið laut í lægra haldi fyrir kínverskri verksmiðjuframleiðslu sem yfirtekið hefur markaðinn.

Einnig er bent á að bækur um sýningarnar tvær eru fáanlegar í safnbúð Hafnarborgar.