Sýningarlok og leiðsögn

Síðasta sýningarhelgi sýninganna Margoft við sjáum og margoft við sjáum aftur,  verk eftir Jóhönnu Kristbjörgu Sigurðardóttur og Afstæði, málverk eftir Jón Axel Björnsson rennur upp 26. – 27. maí.

Að því tilefni verður boðið upp á leiðsögn um sýningarnar laugardaginn 26. maí klukkan 14.

Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir fæst við margþætta innsetningar þar sem hún notast við ólíka miðla. Mikil leikgleði ríkir í verkum hennar sem einkennast af flæði óhlutbundinna forma og lita sem hún vinnur með á ljóðrænan hátt líkt og um sjálfstætt tungumál sé að ræða. Á sýningunni í Hafnarborg eru innsetningar sem samanstanda af málverkum, skúlptúrum og myndböndum en flestar hafa ekki verið áður sýndar hérlendis.

Málverk og vatnslitamyndir Jóns Axels Björnssonar dansa á litríkum mörkum hins sýnilega og ósýnilega, á milli forma sem birta okkur hluti og fanga huglægt ástand. Verkin einkennast af stórum einlita flötum sem skipta upp myndfletinum og fljóta á yfirborði hans, mannsmyndir skjóta upp kollinum á leið út eða inn við jaðar myndrammans. Myndheimurinn er samhæfður; litafletir, fígúrur og hlutir skapa spennu innan rammans og gefa til kynna að í verkunum búi saga.