Sönghátíð í Hafnarborg 2018

Dagskrá

Sönghátíð í Hafnarborg blæs til mikillar söngveislu dagana 7.–15. júlí 2018 með fjölda tónleika og námskeiða. Haldið er upp á aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands 2018 með því að bjóða upp á mikið úrval af íslenskri tónlist í alls konar mismunandi raddsamsetningum, frá gamalli þjóðlagatónlist til nýrra tónverka, að ógleymdri hinni erlendu tónlist sem mótaði hana – og okkur – frá barokktímanum til samtímans.

Dagskrá tónleika á Sönghátíð í Hafnarborg 2018 er eftirfarandi:

Sunnudagur 8. júlí kl. 20
Symphonia Angelica. Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, mezzósópran, Sigurður Halldórsson, sellóleikari og Halldór Bjarki Arnarson, semballeikari, flytja barokktónlist eftir Händel, Monteverdi og Porpora.

Þriðjudagur 10. júlí kl. 20
Þjóðlög í þjóðleið. Söngoktettinn Cantoque: Hallveig Rúnarsdóttir, Þórunn Vala Valdimarsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Lilja Dögg Gunnarsdóttir, Eyjólfur Eyjólfsson, Þorkell Helgi Sigfússon, Hafsteinn Þórólfsson og Örn Ýmir Arason koma fram.

Miðvikudagur 11. júlí kl. 20
Baðstofubarokk. Eyjólfur Eyjólfsson, söngur og langspil, Björk Níelsdóttir, söngur og langspil, og Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir, söngur og barokkselló.

Fimmtudagur 12. júlí kl. 20
Master class tónleikar. Kristinn Sigmundsson og nemendur á master class námskeiði hans flytja sönglög og aríur. Matthildur Anna Gísladóttir, píanóleikari.

Föstudagur 13. júlí kl. 20
It’s a Woman’s World. Olga Vocal Ensemble fagnar þekktum kvenkyns listamönnum síðustu 1000 ára. Pétur Oddbergur Heimisson, Matthew Smith, Jonathan Ploeg, Arjan Lienarts og Philip Barkhudarov syngja.

Laugardagur 14. júlí kl. 17
Fjölskyldutónleikar. Íslensk og erlend þjóðlög. Funi: Bára Grímsdóttir og Chris Foster. Duo Atlantica: Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Francisco Javier Jáuregui. Einnig koma fram börn í söngsmiðju hátíðarinnar, sem Ingibjörg Fríða og Sigurður Ingi stjórna.

Sunnudagur 15. júlí kl. 20
Fullveldi 1918–2018. Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands er fagnað með því að flytja hápunkta úr íslenskri söngsögu síðustu hundrað ára. Flytjendur eru Þóra Einarsdóttir, sópran, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, mezzósópran, Francisco Javier Jáuregui, gítarleikari, Ástríður Alda Sigurðardóttir, píanóleikari, og Ásta Marý Stefánsdóttir, sópran, sem er Vox Domini verðlaunahafi.

Bæði eru seldir stakir miðar á hverja tónleika hátíðarinnar en einnig er í boði hátíðarpassi á alla tónleika hátíðarinnar. Hátíðarpassinn kostar 9.000 kr. og veitir hann aðgang fyrir handhafa að öllum sjö tónleikum Sönghátíðar í Hafnarborg. Annars kostar stakur miði á hverja tónleika 3.000 kr. á fullu verði eða 2.500 kr. með afslætti fyrir eldri borgara og öryrkja.

Á hátíðinni verður einnig boðið upp á fjögur námskeið: master class fyrir unga söngvara og söngnemendur, söngnámskeið fyrir áhugafólk, tónlistar- og söngsmiðjur fyrir 6–12 ára börn og íslenskt þjóðlaganámskeið.

Sönghátíð í Hafnarborg var fyrst haldin sumarið 2017 og er þetta því í annað sinn sem hún fer fram. Hátíðin var stofnuð með það að markmiði að koma list raddarinnar á framfæri en listrænn stjórnandi er Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og meðstjórnandi er Francisco Javier Jáuregui. Nánari upplýsingar um dagskrána, tónleikana og námskeiðin má finna á heimasíðu hátíðarinnar.