Skæri – blað – listaverk

Í tilefni af Bóka- og bíóhátíðar barnanna verður haldin listasmiðjan Skæri – blað – listaverk, sunnudaginn 21. febrúar kl. 14. Þá býður Hafnarborg fjölskyldum að koma og skapa eitthvað fallegt saman í formi listaverks eða bókverks. Efniviðurinn verður bækur, pappír og texti og sem hægt er að klippa, líma eða brjóta saman í origami. Við upphaf smiðjunnar verður boðið uppá leiðsögn um sýningu Ragnhildar Jóhanns, DIKTUR, sem nú stendur yfir í Sverrissal safnsins en Ragnhildur vinnur með notaðar bækur sem í meðförum hennar umbreytast og öðlast annað líf.

Bóka- og bíóhátíð barnanna, menningarhátíð fyrir börn í Hafnarfirði, verður haldin vikuna 15. – 21. febrúar.  Þessa vikuna verður sérstök áhersla lögð á bækur og kvikmyndir og skapandi og skemmtileg verkefni sem tengjast hvoru tveggja. Tilgangur hátíðarinnar er að efla áhuga barna á lestri og læsi í víðum skilningi og mun hátíðin styðja við læsisverkefni leik- og grunnskóla bæjarins sem í gangi hefur verið síðustu misseri.

Börn, bækur og bíó í sviðsljósinu.
Menningarhátíðin er haldin í nánu samstarfi Hafnarfjarðarbæjar við Bókasafn Hafnarfjarðar, grunnskóla, leikskóla, Bæjarbíó og fleiri aðila. Yfirlýst markmið hátíðar er að hvetja börn á öllum aldri til virkrar þátttöku í uppbyggjandi og áhugaverðum læsis- og menningarverkefnum og – viðburðum á meðan á hátíðinni stendur.  Þetta er í fyrsta skipti sem blásið er til slíkrar hátíðar í Hafnarfirði og standa vonir til þess að úr verði árleg hátíð þar sem börn, bækur og bíó eru í sviðsljósinu.

Frír aðgangur er á alla viðburði hátíðarinnar!