Málþing – Heimurinn án okkar

Í tengslum við sýninguna Heimurinn án okkar sem nú stendur yfir í Hafnarborg verður efnt til málþings í húsakynnum safnsins fimmtudagskvöldið 24. september kl. 20. Þar sem viðfangsefnum sýningarinnar verður gerð skil með þátttöku fræðimanna úr ólíkum greinum.

Þátttakendur málþingsins eru Dr. Benedikt Hjartarson prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Erindi hans  ber heitið Alheimsmál og germönsk heimsmyndarfræði: Abstraktverk Finns Jónssonar, Der Weg og hefð norrænnar frumhyggju. Gunnar J. Árnason listheimspekingur fjallar um kristalla og margflötunga í myndlist í erindi sínu Um tilfinningalegt ójafnvægi kristalla. Sævar Helgi Bragason verkefnisstjóri vísindamiðlunar hjá Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands flytur erindið Fyrirbærin sem veittu innblásturinn. Þar segir hann frá þeim fyrirbærum í alheiminum sem kunnu að hafa verið kveikjan að verkum listamanna sýningarinnar. Einnig munu sýningarstjórar sýningarinnar, þær Aldís Arnardóttir listfræðingur og Aðalheiður Valgeirsdóttir listfræðingur og myndlistarmaður segja stuttlega frá sýningarhugmyndinni.

Dr. Benedikt Hjartarson er prófessor í almennri bókmenntafræði og menningarfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hans hafa einkum snúið að framúrstefnuhreyfingum í evrópskum bókmenntum og listum á 20. öld. Á því sviði hefur hann m.a. beint sjónum að sambandi framsækinnar fagurfræði, dulspeki og hugmyndaheims nútímans.

Gunnar J. Árnason er listheimspekingur, sjálfstætt starfandi listgagnrýnandi og sérfræðingur við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Gunnar hefur skrifað um íslenska myndlist í bókum, sýningarskrám, tímaritum og fjölmiðlum. Hann var einn af höfundum Íslenskrar listasögu (2011).

Sævar Helgi Bragason er verkefnisstjóri vísindamiðlunar hjá Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands, stjörnufræðikennari við MR, ritstjóri Stjörnufræðivefsins og formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Sævar hefur skrifað fjölda greina og haldið ótal fyrirlestra um stjörnufræði og stjörnuskoðun og fengist við dagskrárgerð í útvarpi um sama efni.

Aðalheiður Valgeirsdóttir útskrifaðist úr grafíkdeild Myndlista-og handíðaskóla Ísland 1982. Hún lauk BA prófi í listfræði frá HÍ 2011 og MA prófi í sömu grein árið 2014. Í lokaritgerð sinni til MA prófs sem ber titilinn Pensill, sprey, lakk og tilfinning. Málverkið á Íslandi á 21. öld, fjallar hún um eðli málverksins, nálgun íslenskra samtímalistamanna á því í listsköpun sinni og endurskilgreiningu málverksins með tilkomu nýrra miðla. Hún starfar nú bæði sem myndlistamaður og sjálfstætt starfandi listfræðingur.

Aldís Arnardóttir útskrifaðist með MA gráðu í listfræði við Háskóla Íslands árið 2014 og hafði áður lokið þaðan BA prófi í listfræði árið 2012. Í lokaverkefni sínu til MA prófs fjallar hún um norrænu myndlistarsýninguna Experimental Environment II sem haldin var að Korpúlfsstöðum árið 1980, aðdraganda hennar og upphaf landlistar á Íslandi. Í störfum sínum sem sjálfstætt starfandi listfræðingur hefur Aldís aðallega fengist við rannsóknarverkefni og skrif og hefur hún gert sýningartexta fyrir bæði listamenn og gallerí.