Sýningarlok – Leiðsögn með Benedikt Hjartarsyni um sýninguna Bókstaflega

Sunnudaginn 21. maí kl. 14 mun Benedikt Hjartarson prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands leiða gesti um sýninguna Bókstaflega, Konkretljóð á Íslandi frá 1957 til samtímans. Þetta er jafnframt síðasti sýningardagur sýningarinnar.

Á sýningunni eru birtingamyndir konkretljóða í íslenskri myndlist kannaðar. Konkretljóð skutu fyrst upp kollinum á Íslandi um miðjan sjötta áratuginn. Í hugmyndalistinni, sem hóf innreið sína með nýrri kynslóð listamanna í upphafi áttunda áratugarins, öðlaðist tungumálið aukið vægi og byggðu verkin oft á textum, ljósmyndum og vídeói, auk gjörninga og innsetninga. Segja má að með tilkomu SÚM-kynslóðarinnar hafi konkretljóðaforminu fyrst verið beitt fyrir alvöru hérlendis.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan fyrstu konkretljóðin tóku að birtast og eins og sýningin gefur til kynna hefur sá straumur í ljóðagerð runnið í ótal farvegi og það er áhugavert að skoða hvernig listamenn og rithöfundar samtímans hafa kannað þanþol konkretljóðaformsins í gegnum breytta tækni og nýja sýn á framtíðina.

Listamenn sem eiga verk á sýningunni eru: Ásta Fanney Sigurðardóttir, Birgir Andrésson, Einar Bragi Sigurðsson, Emmett Williams, Dieter Roth, Guðbergur Bergsson, Guðjón Ketilsson, Halldór Ragnarsson, Haraldur Jónsson, Jón Laxdal, Kristinn E Hrafnsson, Kristján Guðmundsson, Magnús Pálsson, Margrét Bjarnadóttir, Ragnhildur Jóhanns, Sigríður Björnsdóttir, Sigurður Guðmundsson, Steingrímur Eyfjörð, ásamt völdum skáldum sem hafa fengist við konkretljóðagerð.