Leiðsögn – Kvenhetjan

Sunnudaginn 19. mars kl. 15 býður Hafnarborg gestum safnsins upp á leiðsögn um sýninguna Kvenhetjan, en þar má sjá úrval verka eftir Steingrím Eyfjörð sem öll hafa konur eða kvenpersónur að viðfangi. Mörg hver hafa verið sýnd áður en nú gefst tækifæri til að sjá þau á sama stað, þar sem hægt er að kanna sýn Steingríms í þessum verkum og sjá hvernig konur hafa fylgt honum sem viðfangsefni allt frá því snemma á ferlinum.

Steingrímur Eyfjörð (f. 1954) er í framvarðasveit listamanna sem komu fram á sjónarsvið íslenskrar myndlistar á 8. áratug síðustu aldar. Verk hans spanna breiða notkun miðla, þar með talið ljósmyndun, myndasöguform, myndbandsverk, málverk, skúlptúrar, gjörningar, skriftir og innsetningar. Hann á að baki um 50 einkasýningar og fjölmargar samsýningar hér á landi og erlendis. Steingrímur var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum árið 2007.