Hnoða, kreista, kremja, klessa – listasmiðja

Hafnarborg býður fjölskyldum að koma og taka þátt í skemmtilegri og skapandi listasmiðju á vegum safnsins sunnudaginn 18. nóvember kl. 15–17. Eins og alltaf er ókeypis aðgangur í smiðjuna og að safninu sjálfu. Listasmiðjan fer fram í Apótekinu, sal á fyrstu hæð safnsins.

Smiðjan er haldin í tengslum við sýninguna SNIP SNAP SNUBBUR, sem nú stendur yfir í aðalsal safnsins, með nýjum olíuverkum og leirskúlptúrum eftir Guðmund Thoroddsen. Í smiðjunni verða unnin verkefni með bæði leir og olíupastellitum. Þátttakendum er boðið að móta skúlptúra eftir eigin höfði með áhrifum frá verkum Guðmundar og vinna portrettmyndir með olíupastel á litaðan pappír. Markmið smiðjunnar er að þjálfa sjónræna athygli og örva skapandi hugsun út frá kveikjum í okkar daglega nærumhverfi.