Hljóðön – Samhljómur 16 strengja

Sunnudaginn 4.  janúar kl. 20 kemur Strengjakvartettinn Siggi fram á tónleikum tónleikaraðarinnar Hljóðön í Hafnarborg. Þar verður hugmyndum um kvartettformið velt upp og sameining hljóðfæranna fjögurra í einn hljóðheim hugleidd. Á efnisskrá eru verk eftir Giacinto Scelsi, Naomi Pinnock og frumflutningur bæði Strengjakvartetts nr. 2 eftir Atla Heimi Sveinsson og nýs verks eftir Unu Sveinbjarnardóttur.

Strengjakvartettinn Siggi kom fyrst fram á tónleikum samnorrænu tónlistarhátíðarinnar UNM sem haldin var árið 2012. Þar strauk kvartettinn strengi, jafnt sem statíf og hljóðfærabúka við góðan orðstír. Hópurinn er skipaður Unu Sveinbjarnardóttur og Helgu Þóru Björgvinsdóttur, fiðluleikurum, Þórunni Ósk Marínósdóttur, víóluleikara og Sigurði Bjarka Gunnarssyni, sellóleikara.

Una Sveinbjarnardóttir, fiðluleikari, hefur komið fram á tónleikum víða í Evrópu og í Bandaríkjunum og hefur Una leikið með mörgum hjómsveitum í Evrópu og má þar nefna Ensemble Modern í Frankfurt, Rundfunk-Sinfóníuhljómsveitina í Berlín, Deutsche Oper í Berlín, Klangverwaltung í München og m.a. verið konsertmeistari Klassísku Fílharmóníunnar í Bonn, Sinfóníuhljómsveitarinnar í Þrándheimi undir stjórn Kryztof Penderecki og hljómsveitar Íslensku óperunnar. Þá hefur hún leikið með Kammersveit Reykjavíkur frá 1995. Una stundaði fiðlunám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Tónlistarháskólann í Köln og Universität der Künste í Berlín. Una leikur með Sinfóníuhljómsveit Íslands og kennir við Tónlistarskólann í Reykjavík, Nýja Tónlistarskólann og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Helga Þóra Björgvinsdóttir, fiðluleikari, hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Unga fólksins og Strengjasveitinni Skark og kemur jafnframt reglulega fram með hópum á borð við Elektra Ensemble, Kammersveit Reykjavíkur og Ensemble Adapter í Berlín. Helga Þóra lauk masters-námi í fiðluleik við Konunglega tónlistarháskólann í Brussel hjá prófessor Kati Sebestyen árið 2013, þar áður stundaði hún nám við Listaháskólann í Berlín hjá Isabelle Faust og  Artemis kvartettinum, Listaháskóla Íslands, Tónlistarskólann í Reykjavík og Tónmenntaskóla Reykjavíkur. Á meðal þeirra sveita og hópa sem hún hefur leikið með í gegnum árin má nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, Solistenensemble Kaleidoskop, Orchestre Prométhée, Orchestre de la Cité Internationale Universitaire de Paris og Sebestyen strings.

Þórunn Ósk Marínósdóttir, víóluleikari, hefur komið fram sem einleikari á Íslandi, Hollandi, Belgíu og Japan. Hún starfar einnig ötullega á sviði kammertónlistar og er reglulegur gestur á tónlistarhátíðum um allt land. Þórunn hefur sinnt stöðu leiðara víóludeildar í kammersveitinni Prima la Musica og verið seinna meðlimur í einleikarasveitinni I Fiamminghi og komið fram með henni meðal annars í Japan, Taiwan og á Norðurlöndunum. Þórunn lauk Mastersnámi í víóluleik frá Tónlistarháskólanum í Brussel, Belgíu árið 1996 þar sem kennari hennar var Ervin Schiffer. Þórunn starfar í dag sem aðstoðarleiðari í Sinfóníuhljómsveit Íslands og er meðlimur í Kammersveit Reykjavíkur.

Sigurður Bjarki Gunnarsson, sellóleikari, lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1995 undir handleiðslu Gunnars Kvaran. Sigurður lauk Bachelorsprófi frá Manhattan School of Music árið 1998 og Mastersprófi frá Juilliard-skólanum í New York árið 2000. Auk þess að starfa í Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur Sigurður Bjarki komið fram með Kammersveit Reykjavíkur, CAPUT-hópnum og Kammerhóp Salarins. Sigurður hefur einnig komið fram á sumartónleikum í Skálholti og tónlistarhátíðinni á Kirkjubæjarklaustri

Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar þar sem hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Nafn tónleikaraðarinnar skírskotar til smæstu merkingargreinandi hljóðeiningar í hljóðkerfi tungumála, grunneiningar sem púsla má ólíkt saman svo úr verði tilraun til merkingar. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni verða verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar og telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu. Tónleikaröðin er styrkt af tónlistarsjóði mennta- og menningarmálaráðuneytis og tónlistarsjóði Ernst von Siemens.

ernst von siemens music foundation
Aðgöngumiðar eru seldir á midi.is og í Hafnarborg s. 585 5790. Almennt miðaverð er kr. 2500 en fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1500.