Hljóðön – Jennifer Torrence

Laugardaginn 26. janúar kl. 14 fer fram sérstakur tónlistarviðburður í tilefni af opnun sýningarinnar Hljóðön – sýning tónlistar. Þar frumflytur slagverksleikarinn Jennifer Torrence nýtt verk eftir Bergrúnu Snæbjörnsdóttur, ásamt því að flytja verk Tom Johnsons, Níu bjöllur, frá árinu 1979. Viðburðurinn er jafnframt hluti af dagskrá Myrkra músíkdaga.

Efnisskrá

Tom Johnson,
Níu bjöllur (1979) 45′

Bergrún Snæbjörnsdóttir,
Nýtt verk (2019) 10′,
frumflutningur

Slagverksleikarinn Jennifer Torrence sérhæfir sig í flutningi samtímatónlistar. Þá vinnur hún jöfnum höndum sem flytjandi og listrannsakandi á því sviði en í rannsóknum sínum beinir hún athygli að vægi hins líkamlega í lifandi tónlistarflutningi. Sem meðhöfundur og flytjandi stendur Jennifer einnig að langtímaþróunarverkefnum með höfundum vítt og breitt um heiminn. Jennifer er búsett í Osló og sinnir listrannsóknarstöðu hjá Listaháskóla Noregs, þar sem hún flytur fyrirlestra og sinnir einkakennslu.

Sýningin Hljóðön fagnar fimm ára starfsafmæli samnefndrar tónleikaraðar, sem hefur verið á dagskrá Hafnarborgar allt frá árinu 2013 og tileinkuð er samtímatónlist. Víkkar því hér starf raðarinnar tímabundið þar sem tækifæri gefst til nánari kynna við tónlist, sem tekst með einum eða öðrum hætti að dreifa úr sér í tímaleysi safnsins.

Hljóðön – sýning tónlistar opnar í aðalsal safnsins, að viðburðinum loknum, kl. 15.