Hljóðön – Andþemu og örsögur

Sunnudaginn 22. apríl, kl. 20, slá þær Hulda Jónsdóttir, fiðluleikari og Tinna Þorsteinsdóttir, píanóleikari botninn í fimmta starfsár tónleikaraðarinnar Hljóðön í Hafnarborg með tónleikum sínum tileinkuðum andþemum og örsögum. Frumflutt verður nýtt verk Karólínu Eiríksdóttur Örsögur að vori, sem samið er sérstaklega í tilefni tónleikanna og fléttast verkið saman við andþemu og styttri frásagnir allt frá miðbiki 20. aldar og fram á okkar daga, í verkum Pierre Boulez, Karlheinz Stockhausens, Giacinto Scelsis og Bryns Harrisonar.

Hulda Jónsdóttir, fiðluleikari, leikur um þessar mundir með kammersveitinni Ensemble Resonanz og strengjakvintettinum Wooden Elephant í Þýskalandi. Sem einleikari og kammertónlistarmaður hefur hún tvívegis leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem og með kammersveitinni í Morelos, Mexíkó og á ýmsum hátíðum í Evrópu til að mynda PODIUM hátíðunum í Esslingen og Haugesund og Festspiele Mecklenburg Vorpommern. Hún hefur einnig leikið á samning hjá Philharmoniker Hamburg, sem gestur með Rotterdams Philharmonisch Orkest, NDR Elbphilharmonie Orchester, Nederlands Kammerorkest og lék um nokkurra mánaða skeið til reynslu sem 2. konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands haustið 2016. Hulda hóf fiðlunám í Reykjavík fjögurra ára gömul. Vorið 2009 lauk hún diplómaprófi frá Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Guðnýjar Guðmundsdóttir og hóf um haust sama ár nám við The Juilliard School í New York. Hún nam þar í borg um sex ára skeið hjá Robert Mann, David Chan og Laurie Smukler og lauk Master of Music gráðu frá Juilliard vorið 2015.

Tinna Þorsteinsdóttir, píanóleikari, er með víðtæka reynslu á sviði nýrrar tónlistar og hefur frumflutt um 80 píanóverk sem samin hafa verið fyrir hana síðastliðin ár og hlaut m.a. Menningarverðlaun DV í flokki tónlistar árið 2013 fyrir störf sín. Hún vinnur náið með mörgum íslenskum tónskáldum, er liðtæk í tilraunatónlistarsenunni og hefur unnið að einleiksverkum með listamönnum á borð við Helmut Lachenmann, Alvin Lucier, Christian Wolff, Peter Ablinger, Morton Subotnick, Lars Graugaard, Cory Arcangel og Mme Yvonne Loriod-Messiaen. Menntuð sem klassískur píanóleikari þá spilar Tinna allar aldir píanóbókmenntanna, þótt 21sta öldin sé hennar aðal ástríða. Undirbúið píanó, rafhljóð, dótapíanó, leikhúsverk og gjörningar rata gjarnan inn á efnisskrár hennar. Undanfarin ár hefur Tinna skapað ýmiskonar hljóð- og performansverk og er einnig liðtækur spunalistamaður. Tinna stundaði nám í Hannover og Münster í Þýskalandi og síðar í Boston við New England Conservatory of Music hjá Stephen Drury, þaðan sem hún lauk Graduate Diploma. Hún hlaut Fulbright styrk og Thor Thors styrk frá The American-Scandinavian Foundation. Tinna hefur tekið þátt í fjölda námskeiða og sótt einkatíma hjá píanóleikurum eins og Yvonne Loriod- Messiaen, Peter Hill, Håkon Austbø og Pierre Réach. Tinna er einnig lærður ráðstefnutúlkur frá Háskóla Íslands.

Hljóðön er tónleikaröð tileinkuð tónlist 20. og 21. aldar þar sem einstök hugmyndaauðgi og listræn glíma tónskálda leiða áheyrendur inn á áður ókunnar slóðir. Hafnarborg efnir hér til tónleikaraðar þar sem ætlunin er að kynna ólík verk samtímatónskálda úr fremstu röð. Í forgrunni verða verk sem fá best notið sín við þær aðstæður og miklu nánd sem býðst í sal Hafnarborgar og telja má sérstakan í flóru tónlistarsala á höfuðborgarsvæðinu. Tónleikaröðin nýtir stuðnings Mennta- og Menningarmálaráðuneytis.

Aðgöngumiðar eru seldir í Hafnarborg, s. 585 5790. Almennt miðaverð kr. 2500, fyrir eldri borgara og námsmenn kr. 1500.