Hádegistónleikar – Valgerður Guðnadóttir

Valgerður Guðnadóttir

Þriðjudaginn 1. mars kl. 12 mun sópransöngkonan Valgerður Guðnadóttir koma fram á hádegistónleikum í Hafnarborg ásamt Antóníu Hevesi píanóleikara. Á tónleikunum sem bera hinn skemmtilega titil Skvettur og skörungar verða fluttar vinsælar aríur eftir G. Rossini, G. Bizet og F. Lehár ásamt söngleikjalögum sem allir elska.

Valgerður Guðnadóttir nam við Söngskólann í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Kolbrúnu Sæmundsdóttur og útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn vorið 1998. Ári síðar hélt hún til London þar sem hún stundaði söngnám hjá prof. Lauru Sarti við framhaldsdeild Guildhall School of Music and Drama. Hún hefur sungið á fjölmörgum námskeiðum t.d. hjá Robin Stapleton, Emma Kirkby og Graham Johnson.

Hún hóf söngferil sinn með hlutverki Maríu í West Side Story í Þjóðleikhúsinu 18 ára gömul. Síðan þá hefur hún sungið og leikið á ólíkum vettvangi, t.d. hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og Íslensku Óperunni. Valgerður hefur komið víða fram sem einsöngvari hér heima og erlendis, m.a. á opnunarhátíð Hörpu, með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Frostrósum og Óperudraugunum svo dæmi séu tekin.

Valgerður söng hlutverk Maríu í Söngvaseiði og hlaut fyrir það Grímuna, Íslensku leiklistarverðlaunin, sem Söngvari ársins. Valgerður hefur farið með mörg hlutverk á ferlinum, allt frá söngleikjum til óperu eins og t.d. Fantine í Vesalingunum, Janet í Rocky Horror, Papagenu í Töfraflautunni, Mercedes í Carmen, Barbarinu í Brúðkaupi Fígarós og Poppeu í Krýningu Poppeu. Síðastliðið haust fór hún með hlutverk Bertu í Rakaranum frá Sevilla hjá Íslensku Óperunni en fyrir það hlutverk hlaut hún á dögunum tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem söngkona ársins í flokknum sígild- og samtímatónlist. Valgerður mun fara á ný með hlutverk Völvunnar í Völuspá, nýju tónverki eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson fyrir sinfóníuhljómsveit, sópran og kór sem frumflutt var í Hofi 14. febrúar og flutt verður í Eldborgarsal Hörpu þann 16. apríl n.k.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.