Hádegistónleikar – Guðmundur Karl Eiríksson

Guðmundur Karl Eiríksson

Þriðjudaginn 5. september kl. 12 verða fyrstu hádegistónleikar vetrarins haldnir í Hafnarborg. Að þessu sinni er það ungur barítónsöngvari, Guðmundur Karl Eiríksson sem stígur á stokk ásamt Antoníu Hevesi píanóleikara. Yfirskrift tónleikanna er Ostar og jarðaber en Guðmundur, sem er ostagerðarmaður að mennt og alin upp við jarðaberjarækt á Flúðum, ætlar að bjóða tónleikagestum að gæða sér á dísætum íslenskum jarðaberjum. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Guðmundur Karl á stuttum tíma skapað sér nafn í óperuheiminum sem ungur og efnilegur barítónsöngvari og er efnisskrá tónleikanna sérsniðin fyrir rödd á hans kalíberi en það eru aríur úr óperum eftir Gounot, Leoncavallo og Donizetti.

Guðmundur Karl Eiríksson hóf söngnám í Söngskólanum í Reykjavík árið 2011 hjá Garðari Thor Cortes. Árið 2015 færði hann sig svo yfir í Söngskóla Sigurðar Demetz og hefur verið nemandi Kristjáns Jóhannssonar síðan. Guðmundur hefur tekið þátt í nemendaóperum hjá báðum skólum og má þar nefna titilhlutverk í Gianni Schicci, Leporello í Don Giovanni og Figaro í Rakaranum frá Sevilla, einnig söng hann hlutverk Barone í La Traviata með óperukórnum.

Síðastliðið sumar var honum boðið að syngja hlutverk Schaunard í La Boheme á Ítalíu undir stjórn Joseph Rescigno. Í september mun Guðmundur svo halda til Verona á Ítalíu að læra þar hið stóra hlutverk Enrico úr Luchia di Lammermoor fyrir uppfærslu sem hann tekur þátt í næsta sumar í San Marino.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.