Hádegistónleikar – Dísella Lárusdóttir

Dísella Lárusdóttir

Þriðjudaginn 4. desember kl. 12 kemur sópransöngkonan Dísella Lárusdóttir fram á hádegistónleikum í Hafnarborg ásamt Antoníu Hevesi píanóleikara. Aðventan er nú gengin í garð og að venju mun andi jólanna svífa yfir vötnum á desemberstónleikum Hafnarborgar sem jafnframt eru síðustu hádegistónleikar þessa árs. Yfirskrift tónleikana eru Maríur og fleiri en þær stöllur munu flytja á hinar ýmsu Ave Maríur fyrir tónleikagesti sem og aríuna Quan do men vo úr óperunni La Bohème sem gerist jú einmitt um jól.

Dísella Lárusdóttir þreytti frumraun sína hjá Metropolitan óperunni í New York í mars 2013 en síðan þá hefur hún starfað ár hvert við húsið og sungið í tíu öðrum óperuuppfærslum á þessu merka sviði.  Þess má geta að þrjár af uppfærslunum sem hún söng í, Francesca da Rimini e. Riccardo Zandonai,  Rusalka e. Antonin Dvorák og Marnie e. Nico Muhly voru sýndar í beinni útsendingu um allan heim í svokallaðri HD Live sýningu.  Dísella hefur víða komið fram sem einsöngvari, meðal annars í Carnegie Hall í New York, Disney Hall í Los Angeles ásamt fjölda tónlistarhátíða í Bandaríkjunum. Dísella mun stíga á svið Metropolitan óperunnar  aftur á næsta ári í óperunni Akhnaten e. Philip Glass. Dísella þreytti einnig nýverið frumraun sína á sviði í Evrópu (utan Íslands) þegar hún fór með hlutverk Lulu í samnefndri óperu eftir Alban Berg í óperunni í Róm á Ítalíu.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Hádegistónleikar eru á dagskrá Hafnarborgar fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis.