Hádegistónleikar – Bragi Bergþórsson

Bragi Bergþórsson

Þriðjudaginn 6. október kl. 12 mun tenórinn Bragi Bergþórsson koma fram á hádegistónleikum í Hafnarborg ásamt Antóníu Hevesi píanóleikara.

Bragi Bergþórsson er fæddur árið 1981 í Reykjavík. Hann hóf ungur tónlistarnám á fiðlu og píanó en söng í fyrsta skipti á sviði í barnakór í óperunni Othello í Íslensku Óperunni árið 1992. Hann söng einnig með Hamrahlíðarkórunum en sneri sér að söngnámi árið 2002 í Tónlistarskólanum í Reykjavík hjá Dr. Þórunni Guðmundsdóttur og lauk þaðan 5. stigi. Árið 2004 hélt hann til Lundúna þar sem hann stundaði meistaranám við Guildhall School of Music & Drama hjá Adrian Thompson og Rudolf Piernay. Þar lauk hann M.mus gráðu 2005 og svo 2 ára námi við Óperudeild skólans 2007. Hann hefur einnig setið og tekið þátt í ýmsum masterklössum, m.a. hjá sir Thomas Allen, Kristjáni Jóhannssyni, Elly Ameling, Jorma Hynninen, Dalton Baldwin og Helmut Deutsch.

Hann hefur komið fram í ýmsum óperuhlutverkum, ss. Hans í Seldu Brúðinni (Smetana), Lenskí í Évgení Ónégin (Tsjækofskí), Wenzel í Kleider machen Leute (Zemlinsky), Idamante í Idomeneo (Mozart), Edwin í Sardasfurstynjunni (Kálmán), Baron Kronthal í Der Wildschütz (Lortzing), Flamand í Capriccio (Strauss) og Don Ottavio í Don Giovanni (Mozart). Hann hefur komið fram á tónleikum víðsvegar og sungið suma af stærstu flokkum ljóðatónlistarinnar, ss. Dichterliebe (Schumann) og Schwanengesang (Schubert). Einnig hefur hann tekið þátt í uppfærslum á óratoríum eins og Messíasi (Händel), Requiem (Mozart), Sinfóníu nr. 4 (Schnittke) og Passio (Pärt). Bragi var fastráðinn við óperuhúsið í Stralsund, Theater Vorpommern en býr nú á Íslandi.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.