Hádegistónleikar

Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópran og Antonía Hevesí píanóleikari

Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópran kemur fram á hádegistónleikum í Hafnarborg þriðjudaginn 2. desember kl. 12 ásamt Antoníu Hevesi píanóleikara. Tónleikarnir bera nafnið Maríustund en þar mun Hanna Þóra syngja ljóð, bænir og aríur sem tengjast heilagri Maríu og jólunum.

Hanna Þóra stundaði nám við Tónlistarskólann á Akranesi og síðar við Söngskólann í Reykjavík undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur, Signýjar Sæmundsdóttur og Kolbrúnar Sæmundsdóttur. Þaðan lauk hún 8. Stigsprófi vorið 2005. Hún hefur sótt meistanámskeið hjá virtum tónlistarmönnum meðal annars hjá Kristjáni Jóhannssyni, André Orlowitz, Kristni Sigmundssyni, Janet Williams og Jónasi Ingimundarsyni. Árið 2008 var hún valin til þess að syngja í International Hans Gabor Belvedere Competition, sem er ein stærsta keppni í heimi fyrir unga og upprennandi óperusöngvara. Á meðal hlutverka sem Hanna Þóra hefur sungið má nefna Drekafluguna í Töfraheimi Prakkarans eftir Ravel, Genovefa úr Systir Angelicu eftir Puccini, Greifinjuna í Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart, og Ines í Il Trovatore eftir Verdi. Árið 2o14 söng hún hlutverk daggarálfsins og Óla lokbrá í barnaóperunni Hans og Grétu á vegum Óp-hópsins og var einsöngvari í Óperunni Ragnheiði eftir þá Gunnar Þórðarsson og Friðrik Erlingsson sem sett var upp af Íslensku Óperunni jafnframt fór hún með hlutvek í óperunni Skáldið og biskupsdóttirin eftir Alexöndru Chernyshova og Guðrúnu Ásmundsdóttur sem frumflutt var í Hallgrímskirkju í Saurbæ í vor. Árið 2011 var Hanna Þóra útnefnd bæjarlistamaður Akraness.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Hádegistónleikar eru haldnir fyrsta þriðjudag í mánuði.Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.