Ganga um græn svæði

Fimmtudagskvöldið 10.  mars kl. 20 mun Þráinn Hauksson landslagsarkitekt leiða göngu þar sem hann segir frá gönguvænu umhverfi í Hafnarfirði og mikilvægi grænna svæða við þéttingu byggðar. Gengið frá Hafnarborg.

Vinnustofan Þinn staður – Okkar bær er nú opin í Hafnarborg þar sem rýnt er í það sem er efst á baugi í framkvæmdum og skipulagsmálum í miðbæ Hafnarfjarðar og aðliggjandi svæðum. Sýningarstjóri er Magnea Guðmundsdóttir, arkítekt.

Hafnarborg ásamt Umhverfis og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðar og Markaðsstofu Hafnarfjarðar standa sameiginlega að opinni vinnustofu þar sem helstu framkvæmdir og skipulagsverkefni í miðbæ Hafnarfjarðar og nágrenni hans verða kynnt. Samþætting grasrótarstarfs og starfs skipulagsyfirvalda verður skoðuð sérstaklega með aðstoð frá Mariu Lisogorskaya frá Assemble. Skipulag og hönnun umhverfis skiptir okkur öll miklu máli og getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir það mannlíf sem ætlað er að dafna á hverjum stað. Mikilvægt er að sem flestar raddir fái að hljóma í skipulagsvinnunni og tekið sé tillit til óska þeirra sem eiga að gæða hið byggða umhverfi lífi með nærveru sinni. Í þessari vinnustofu gefst almenningi tækifæri til að ræða áherslur skipulagsyfirvalda og koma með ábendingar um það sem vel er gert og hvað má bæta.

Vinnustofan er hluti af Hönnunarmars 2016.