Fyrstu hádegistónleikar vetrarins – Þorsteinn Freyr Sigurðsson

Þorsteinn Freyr Sigurðsson

Þriðjudaginn 1. september kl. 12 verða fyrstu hádegistónleikar vetrarins haldnir í Hafnarborg. Það er tenórinn Þorsteinn Freyr Sigurðsson sem tekur af skarið og stígur á stokk ásamt Antóníu Hevesi píanóleikara og munu þau flytja tilfinningaríkar ítalskar aríur fyrir gesti Hafnarborgar. Þar má hæst nefna hina gullfallegu aríu Una furtiva lagrima úr óperunni L’elisir d’amore eftir Donizetti en hann mun einnig flytja aríur úr óperunum Cosi fan tutte og Don Giovanni eftir W.A. Mozart.

Þorsteinn Freyr Sigurðsson er fæddur árið 1984 á Siglufirði. Hann hóf söngnám árið 2005  hjá Elísabetu Erlingsdóttur við Tónskóla Reykjavíkur og hélt áfram að læra hjá henni í Listaháskóla Íslands frá 2007 til 2010. Þorsteinn hefur tvisvar tekið þátt í óperustúdíói Íslensku Óperunnar. Eine Nacht in Venedig árið 2006 og Cosi fan tutte árið 2008. Hann var meðlimur í Kór íslensku óperunnar frá 2008 til 2010. Árið 2012 söng Þorsteinn hlutverk Don Ottavio í óperunni Don Giovanni eftir W.A. Mozart á vegum Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði sem flutt var þar og í Hörpunni í Reykjavík.

Þorsteinn söng hlutverk Ferrando í Cosi fan tutte í september 2011 í uppsetningu á vegum Hochschule für Musik, Theater und Medien í Hannover. Þorsteinn stundaði mastersnám við Hochschule für Musik Hanns Eisler í Berlín hjá Professor Scot Weir og útskrifaðist þaðan árið 2013. Á meðan náminu stóð söng hann meðal annars hlutverk Fé-ni-han í óperunni Ba-ta-clan eftir J. Offenbach, ótitlað hlutverk í Europeras 3 og 4 eftir John Cage, Basilio í Nozze di Figaro og Il contino í La finta giardiniera. Þorsteinn fór svo í einkanám til Janet Williams frá 2013 til 2014.

Þorsteinn starfar nú við óperuhúsið Theater Ulm, í Ulm suður-Þýskalandi þar sem hann hefur sungið Camille de Rossillon í Lustige Witwe, Ferrando í Cosi fan tutte, Eurimaco/Anfinomo í Ritorno d’Ulisse in patria og Bob Boles í Peter Grimes. Á næsta leiktímabili mun hann syngja Pong í Turandot, Don Ottavio í Don Giovanni og Werther í Werther eftir Massenett.

Næstu hádegistónleikar verða 6. október og þá er það Bragi Bergþórsson tenór sem kemur fram og svo er röðin komin að Oddi Arnþóri Jónssyni þann 3. nóvember.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins.

Hádegistónleikar Hafnarborgar eru haldnir mánaðarlega. Þeir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.