Fjölskylduleiðsögn

Sunnudaginn 15. febrúar kl. 14 býður Hafnarborg uppá fjölskylduleiðsögn um sýningu Heklu Daggar Jónsdóttur, Framköllun þar sem börnum og fullorðnum er fylgt í gegnum sýninguna í skemmtilegri leiðsögn.

Framköllun er sjálfstæður heimur þar sem sköpun, úrvinnsla, miðlun og viðtaka listaverks eiga sér stað í sama rými. Hér er á ferðinni ný innsetning sem er eitt umfangsmesta verk listamannsins hingað til og dregur saman margt af því sem einkennt hefur sköpun hennar til þessa.

Hekla Dögg Jónsdóttir er á meðal fremstu listamanna samtímans hér á landi. Hún hefur um árabil vakið athygli fyrir verk sem sýnd hafa verið í söfnum og öðrum sýningarstöðum bæði hér heima og erlendis. Hekla er prófessor í myndlist við Listaháskóla Íslands og hefur auk þess að skapa eigin verk haft áhrif á íslenskan myndlistarheim meðal annars með því að standa að baki Kling og Bang sem hefur verið atkvæðamikið samfélag listamanna um árabil. Sýning Heklu Daggar er unnin í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands.