Fjölskylduleiðsögn

Sunnudaginn 13. september kl. 14 býður Hafnarborg uppá fjölskylduleiðsögn um sýninguna Heimurinn án okkar þar sem börnum og fullorðnum er fylgt í gegnum sýninguna í skemmtilegri leiðsögn.

Alheimurinn og hinar ýmsu víddir hans, sýnilegar jafnt sem ósýnilegar, hafa verið viðfangsefni listamanna á ólíkum tímum. Uppgötvanir og framfarir í geimvísindum og tækni samhliða hugmyndum mannsins um tilvist sína gefa ímyndunaraflinu lausan taum.
Á sýningunni Heimurinn án okkar eru leiddir saman listamennirnir Björg Þorsteinsdóttir, Brynhildur Þorgeirsdóttir, Finnur Jónsson, Gerður Helgadóttir, Marta María Jónsdóttir, Ragnar Már Nikulásson, Steina og Vilhjálmur Þorberg Bergsson. Listamennirnir eru af ólíkum kynslóðum en eiga það sameiginlegt að vinna með þessar hugmyndir í verkunum á sýningunni en nálgast þær á ólíkan hátt í mismunandi miðla.
Sýningarstjórar sýningarinnar Heimurinn án okkar eru Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir.