Fjölskylduleiðangur og listasmiðja

Laugardaginn 19. september kl. 14 býður Hafnarborg upp á fjölskylduleiðangur og listasmiðju í tengslum við sýninguna Heimurinn án okkar sem nú stendur yfir í sölum safnsins. Fjölskylduleiðangurinn er opin öllum en listasmiðjan er hugsuð fyrir börn á aldrinum 5 – 10 ára.

Heimurinn án okkar er forvitnileg og myndræn sýning sem hleypir ímyndunaraflinu af stað, veitir innblástur og gefur rými til persónulegrar túlkunar og umræðna. Á sýningunni má sjá verk átta íslenskra myndlistarmanna af ólíkum kynslóðum sem vinna með hugmyndir um alheiminn í verkum sínum.  Sýningin á erindi við fólk á öllum aldri, ekki síst til barna og unglinga og býður upp á möguleika á fjölbreyttri upplifun og umfjöllun.

Í fjölskylduleiðangrinum og listasmiðjunni  verða ræddar hugmyndir tengdar stjörnufræði, líffræði og öðrum vísindum en einnig heimspekilegar vangaveltur um lífið og alheiminn, takmörkun mannsins, tilvist hans og mörk hins sýnilega og hins óþekkta. Hversu persónuleg og einstaklingsbundin heimssýn okkar getur verið, hve mikið við byggjum á þekkingu og staðreyndum og hvenær tekur ímyndunarafl okkar og tilfinning við?

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru: Björg Þorsteinsdóttir (1940), Brynhildur Þorgeirsdóttir (1955), Finnur Jónsson (1892-1993), Gerður Helgadóttir (1928-1975), Marta María Jónsdóttir (1974), Ragnar Már Nikulásson (1985), Steina (1940) og Vilhjálmur Þorberg Bergsson (1937). Sýningarstjórar eru: Aðalheiður Valgeirsdóttir og Aldís Arnardóttir.