Búum til borg – Fjölskyldusmiðja

Sunnudaginn 6. október kl. 14-16 býður Hafnarborg börnum og fullorðnum að taka þátt í fjölskyldusmiðju í tengslum við sýningu Egils Sæbjörnssonar, Bygging sem vera & borgin sem svið sem nú stendur yfir í aðalsal safnsins.

Sýningin fjallar meðal annars um borgarskipulag og mikilvægi töfra í umhverfi okkar. Í sal safnsins má sjá innsetningu sem er einskonar götumynd. Þátttakendur smiðjunnar fá tækifæri til að teikna upp og hanna sitt eigið umhverfi, byggingar og rými þar sem innblástur er sóttur í eigið ímyndunarafl sem og sýninguna sjálfa þar sem óreglulegum formum og línum er hampað. Hvernig borg viljum við búa í? Hvernig hús myndum við byggja í kringum persónuleika okkar?

Frummyndir verkanna í sýningu Egils eru að hluta sóttar í Bakarí, viðburð sem haldin var í Hafnarborg  í vor sem leið. Þar var almenningi boðið að móta byggingarlist í deig sem síðan var bakað. Þau verk hafa nú verið stækkuð upp og skapa nýtt og framandi umhverfi aðalsal Hafnarborgar.