Bjartir dagar – Fjölskyldusmiðja og listamannsspjall

Sunnudaginn 22. apríl býður Hafnarborg upp á fjölskyldusmiðju klukkan 13. Smiðjan tengist sýningunni Margoft við sjáum og margoft við sjáum aftur sem stendur yfir í aðalsal safnsins. Smiðjan er sniðin að bæði börnum og fullorðnum og allir eru velkomnir.

Klukkan 14 verður Jón Axel Björnsson með listamannsspjall í tengslum við sýningu sína Afstæði sem nú stendur yfir í Sverrissal. Allir velkomnir.

Jón Axel Björnsson er fæddur 1956 í Reykjavík. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1975 – 1979. Jón er starfandi myndlistarmaður og hefur haldið fjölda sýninga á Íslandi og erlendis. Auk myndlistarinnar hefur Jón Axel unnið við kennslu í MHÍ og LHÍ 1985-1999 og Myndlistaskólanum í Reykjavík 1995-2000. Þá vann Jón Axel við leikmyndahönnun 2002-2006 í Borgarleikhúsinu, Þjóðleikhúsinu og LA. Akureyri. Jón Axel hefur einnig starfað með arkitektum að ýmsum verkefnum.