Sjónarafl

Nálgast má hvert listaverk úr óteljandi áttum og sýn okkar á tiltekið verk kann jafnvel að breytast þegar við komum að því aftur síðar – enda þótt verkið hafi sjálft ekki breyst. Þá felst myndlæsi í því að spyrja spurninga um það sem fyrir augu ber og gefa gaum að hinum minnstu smáatriðum, ekki síður en því sem fangar athygli okkar við fyrstu sýn. Enda sjáum við þeim mun meira, því lengur sem við horfum.

Verkin á sýningunni tilheyra öll safneign Hafnarborgar en hvert og eitt þeirra hefur sína sögu að segja. Þegar við skoðum myndir sjáum við frásagnir og hugmyndir lifna við fyrir augum okkar – líkt og að gægjast inn um glugga – og lærum þannig meira um söguna, samfélagið og umhverfið. Þá geta myndir fært okkur til fjarlægra slóða í huganum eða beint sjónum okkar inn á við, aukið sjálfsvitund okkar og dýpkað skilning okkar á heiminum.

Sýnd eru verk eftir Astrid Kruse Jensen, Eirík Smith, Elías B. Halldórsson, Gunnar Hjaltason, Jóhannes S. Kjarval, Jón Engilberts, Marinó Thorlacius og Sigurlaugu Jónasdóttur.

Í samstarfi við:

Fræðslusýningin Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi byggist á samnefndu verkefni Listasafns Íslands

Þjálfun í myndlæsi

Með þessari markvissu þjálfun í myndlæsi, sem grundvallast á umræðu- og spurnaraðferð, má efla getu til að túlka það sem fyrir augu ber, til að setja hlutina í samhengi og færa hugsanir sínar í orð. Lykilspurningin í þjálfuninni er ávallt: „Hvað sérðu?“ en í framhaldinu eru nemendur hvattir til þess að rökstyðja svar sitt. Á þennan hátt eru nemendur leiddir inn í listaverkið og fá auk þess æfingu í því að færa rök fyrir máli sínu og virkja gagnrýna hugsun.

Heimsóknin

Vinsamlegast smellið hér til þess að bóka heimsókn eða hafið samband við skrifstofu með því að senda póst á [email protected].